Vélaverkstæði Hjartar Eiríkssonar var stofnað árið 1948. Fyrst um sinn rak Hjörtur verkstæðið einn en í kringum 1950 hóf bróðir hans, Sigurður, störf hjá honum og varð síðar meðeigandi að verkstæðinu. Hjörtur lést árið 1988 og hefur sonur hans, Hilmar, séð um reksturinn síðan Hjörtur hætti störfum. Sigurður lét af störum sökum aldurs í kringum 2000 og seldi Hilmari hlut sinn skömmu síðar.
Hjörtur reisti 100 fm húsnæði undir starfsemina við íbúðarhús sitt, Valhöll, að Brekkugötu 8 stofnárið 1948. Var keyptur herskáli frá Reykjum í Hrútafirði og undir hann var verkstæðið byggt á einni hæð en skálinn sjálfur myndaði aðra hæðina með bogadregnu þaki. Er húsið í daglegu tali kallað Bragginn. Þar fór starfsemin fram til ársins 1989 þegar núverandi húsnæði við Búland var keypt. Núverandi húsnæði er alls um 525 fm og hefur Vélaverkstæðið yfir að ráða um 400 fm af því rými en einnig er Réttinga og sprautuverkstæði Guðmundar Jóhannessonar rekið í húsnæðinu.
Vélaverkstæðið hefur frá stofnun mestmegnis sinnt öllum almennum bíla-, báta- og búvélaviðgerðum. Á fyrstu starfsárunum tók það einnig að sér ýmiss verkefni auk viðgerða á bifreiðum og tækjum. Til dæmis var töluverð vinna við pípulagnir hjá fyrirtækinu á þeim tíma sem verið var að skipta olíukyndingu út fyrir rafmagnskyndingu í íbúðarhúsum á Hvammstanga og nágrannasveitum. Árið XXX var opnuð í Búlandi 3 vélsmiðja sem sinnir nýsmíði, svo sem innréttingar, t.d. í hesthús og fyrirtæki úr áli, rústfríu stáli og járni, hlið o.þ.h. sem og önnur tilfallandi smíðaverkefni.
Í áratugi hefur Vélaverkstæðið haldið úti viðgerðabíl sem fer um sveitir og á milli bæja og gerir við landbúnaðartæki en dýrt og kostnaðarsamt getur verið fyrir bændur og rekstraraðila fyrirtækja að koma biluðum tækjum til viðgerðar um langan veg.
Frá árinu 1998 hefur útibú Frumherja verið staðsett á Vélaverkstæðinu. Koma skoðunarmenn að jafnaði í tvo daga í senn einu sinni í mánuði til að sinna aðalskoðun bifreiða. Sjá nánari upplýsingar og dagsetningar hér.
Starfsmönnum fyrirtækisins hefur fjölgað jafn og þétt með árunum. Fyrstu tvö árin starfaði Hjörtur einn við fyrirtækið. Síðan hóf Sigurður bróðir hans störf hjá honum. 2-4 starfsmenn störfuðu þá að jafnaði við vélaverkstæðið fyrstu árin. Um 1965 hóf Hilmar Hjartarson núverandi eigandi störf hjá fyritækinu. Þegar húsnæðið að Búlandi 1 var keypt og starfsemin flutt þangað fjölgaði starfsmönnum um 2 og voru þá 6 starfandi við fyrirtækið. Í dag eru 7 fastráðnir starfsmenn hjá fyrirtækinu.